Framkvæmdir við lagningu Vestmannaeyjalína 4 og 5, sem eru 66 kW jarð- og sæstrengir milli lands og Eyja, eru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að mati Skipulagsstofnunar og eru þær því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Eins og fram hefur komið á að leggja fyrirhugaða strengi frá tengivirki í Rimakoti í Rangárþingi eystra niður Landeyjasand til sjávar og þaðan sem sæstrengi til Eyja. Verða þeir báðir um 18 km langir í heildina en tilgangurinn er að tryggja örugga orkuafhendingu fyrir byggðina í Eyjum.

Skipulagsstofnun telur m.a. líklegt að áhrif framkvæmdanna á fjöru, fuglalíf, lífríki og hafsbotn verði óveruleg. Helstu umhverfisáhrif þeirra kunni að verða á þrennar til fernar fornminjar í Rangárþingi ytra og á Flakkarann í Vestmannaeyjum þar sem framkvæmdin muni valda raski á vernduðu Eldfellshrauni.

...