Knattspyrnukonan Þórdís Elva Ágústsdóttir er gengin til liðs við Þrótt úr Reykjavík frá sænska úrvalsdeildarfélaginu Växjö. Þórdís, sem er 24 ára gömul, skrifaði undir tveggja ára samning í Laugardalnum. Hún var í lykilhlutverki í Íslands- og bikarmeistaraliði Vals sumarið 2023. Þórdís á að baki 105 leiki í efstu deild þar sem hún hefur skorað 13 mörk. Þá á hún að baki tíu landsleiki fyrir yngri landslið Íslands. Hún er uppalin hjá Haukum en hefur einnig spilað fyrir FH og Fylki.
Ísland tapaði lokaleik sínum í undankeppni Evrópumóts U19 ára karla í knattspyrnu gegn Írlandi, 2:1, í Chisinau í Moldóvu í gær. Daníel Ingi Jóhannesson skoraði mark íslenska liðsins úr vítaspyrnu á 55. mínútu eftir að brotið var á Stígi Diljan Þórðarsyni. Írar unnu því riðilinn með sjö stig og Ísland fékk sex stig í öðru sætinu. Bæði liðin verða í milliriðli keppninnar seinna í
...