— AFP/Giorgi Arjevanidze

Salome Zurabishvili Georgíuforseti krafðist þess í gær að stjórnlagadómstóll landsins ógilti þingkosningarnar, sem haldnar voru hinn 26. október síðastliðinn, en stjórnarandstaðan segir að stjórnarflokkurinn Georgíski draumurinn hafi haft brögð í tafli.

Sagði í dómkröfu forsetans að m.a. hefði verið brotið gegn almennum kosningarétti fólks, sem og því að hægt væri að greiða atkvæði með leynd. Bandaríkin og Evrópusambandið hafa kallað eftir óháðri rannsókn á framkvæmd kosninganna.

Krafa Zurabishvilis var lögð fram sama dag og lögreglan í Tíblisi leysti upp setumótmæli við ríkisháskólann gegn kosningunum með valdi. Voru mótmælendur meðal annars barðir með kylfum og nokkur fjöldi handtekinn.