Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona heldur upp á fimmtugsafmæli sitt með tónleikum í Norðurljósasal Hörpu á sunnudaginn, 24. nóvember, kl. 16. Á tónleikunum mun Hallveig koma fram með vinum, fjölskyldu og nánasta samstarfsfólki sínu á söngferlinum sem spannar nú 33 ár og eru þeir hluti af tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar.
Góðir gestir munu stíga á svið með Hallveigu, m.a. Hildigunnur Einarsdóttir mezzósópran, Oddur Arnþór Jónsson barítón, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran, Margrét Hrafnsdóttir sópran og sönghópurinn Cantoque Ensemble en þann hóp stofnaði Hallveig ásamt fleirum árið 2017. Á píanó leika svo Hrönn Þráinsdóttir, Matthildur Anna Gísladóttir og Steingrímur Þórhallsson.