Á dögunum ræddi ég við eldri konu, kennara á eftirlaunum, sem sagði: „Þegar ég byrjaði að kenna voru kennaralaun þau sömu og þingmanna.“ Það segir sína sögu af þróun launakjara kennara á þeim tíma sem liðinn er frá því að gamli kennarinn hóf störf fyrir 40-50 árum. En þessi staðreynd segir líka sögu af samfélagi sem einu sinni mat kennarastarfið að verðleikum. Þá voru vissulega aðrir tímar. Innreið kvenna á vinnumarkaðinn hafin og ekki síður menntasókn þeirra. En þá var skólinn líka margsetinn, bekkirnir stórir, raðað í þá eftir getu og börn með sérþarfir send í aðra skóla eða vistuð á opinberum stofnunum.
Við búum til allra heilla í öðru og betra samfélagi í dag. Börn njóta óslitins skóladags og skólamáltíðir eru reglan. Skóli án aðgreiningar krefst skólastarfs sem mætir börnum þar sem þau eru stödd, nám er einstaklingsmiðað og foreldrar tengjast skólastarfinu nánar en áður. Skólabörnum
...