Danski flotinn greindi frá því í gær að hann fylgdist nú grannt með kínversku gámaskipi, Yi Peng 3, sem stöðvað var undan ströndum Danmerkur í fyrrakvöld, en grunur leikur á að skipið, sem er með rússneskan skipstjóra, hafi átt þátt í skemmdarverkum á tveimur sæstrengjum í Eystrasalti fyrr í vikunni.
Forsætisráðherrar Danmerkur og Svíþjóðar, þau Mette Frederiksen og Ulf Kristersson, lýstu því bæði yfir í gær að ekki væri hægt að útiloka viljandi skemmdarverk og að grunur léki á að um fjölþátta árás hefði verið að ræða. „Við lifum á tímum þar sem taka þarf hverja slíka ógn mjög alvarlega. Við höfum áður séð skemmdarverk,“ sagði Kristersson.
Rússnesk stjórnvöld hafa neitað öllum ásökunum um ábyrgð sína.