Isavia hefur valið tilboð þýska fyrirtækisins Heinemann í sérleyfi og aðstöðu til rekstrar fríhafnarverslunarinnar á Keflavíkurflugvelli. Búist er við því að fyrirtækið taki við rekstri fríhafnarinnar í mars.
Heinemann rekur um 500 verslanir í 100 löndum og hefur mikla reynslu af rekstri fríhafnarverslana, þar sem fyrirtækið rekur m.a. slíkar verslanir á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn og á Gardermoen-flugvelli í Ósló. Hjá Heinemann starfa ríflega níu þúsund manns.
Haft er eftir Guðmundi Daða Rúnarssyni, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli, í tilkynningu að með þessari breytingu aukist tekjur flugvallarins verulega um leið og hægt sé að auka þjónustu og bæta vöruúrval.