Skáldsaga Mikilvægt rusl ★★★★½ Eftir Halldór Armand. Flatkakan útgáfa, 2024. Innbundin, 246 bls.
Bækur
Snædís
Björnsdóttir
Mikilvægt rusl nefnist nýjasta skáldsaga Halldórs Armands Ásgeirssonar og hefur þennan líka skemmtilega titil sem hægt er að spá og spekúlera í. Hvað er mikilvægt rusl annað en verðmæti? Ef rusl er mikilvægt, er það þá ennþá rusl? Orðið er refhvörf og í því kjarnast tveir þættir sem segja má að endurspegli söguna í heild sinni: frásagnargleði og dansandi leikur með tungumálið.
Dansandi, segi ég, og bókin hefst einmitt á hálfgerðri danssenu: „Þegar hann var kominn að öskubílnum, sem beið hans rymjandi úti á miðri götunni, sneri Gómur tunnunum fagmannlega í hring með snarpri úlnliðshreyfingu eins og hann væri að dansa við þær og festi þær í lyftuna. […] Við fætur hans lyftist öskutunnan eins og ballerína
...