Þær eru frægar fyrir hlaðborð sín í lautarferðum um land allt og þegar kemur að jólunum fara þær alveg fram úr sér. Þegar von var á blaðamanni og ljósmyndara Morgunblaðsins í aðventukaffi ákváðu þær að fara frumlega leið og það var bókstaflega allt skreytt. Ostar, ávextir, grænmeti, piparkökur, súkkulaði og freyðandi drykkir, svo fátt eitt sé nefnt, var allt borið á borð á listrænan og skapandi hátt. Frumlegra jólaboð er vandfundið.
Gleðjumst yfir öllum árstíðum
„Það þarf ekki að vera hátíðartilefni fyrir okkur til að hafa gaman. Við látum aldrei tækifæri fram hjá okkur fara þegar við getum slegið upp veislu og skreytt eins og enginn sé morgundagurinn. Báðar gleðjumst við yfir öllum árstíðunum og þeim breytingum sem eiga sér stað í veðráttunni, náttúrunni og birtunni og hegðun umhverfisins á hverjum árstíma,“ segir Eirný og brosir.
...