Úlfarsárdalur Arnór Máni Daðason átti stórleik fyrir Fram er hann varði 16 skot og skoraði fjögur mörk í öruggum sigri á Stjörnunni í gærkvöldi.
Úlfarsárdalur Arnór Máni Daðason átti stórleik fyrir Fram er hann varði 16 skot og skoraði fjögur mörk í öruggum sigri á Stjörnunni í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eyþór

Fram hafði betur gegn Stjörnunni, 35:26, í 11. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik í Úlfarsárdal í gærkvöldi.

Fram er eftir sigurinn í þriðja sæti með 15 stig líkt og FH og Afturelding í sætunum fyrir ofan, en þau eiga bæði leik til góða. Stjarnan er í sjöunda sæti með tíu stig.

Heimamenn í Fram hófu leikinn af geysilegum krafti og lögðu grunn að sigrinum með því að komast í 5:0. Staðan var 18:12 í hálfleik.

Í síðari hálfleik náði Fram mest tíu marka forystu og vann að lokum þægilegan níu marka sigur.

Arnór Máni Daðason fór hamförum í marki Fram og varði 16 skot með um 40% markvörslu. Arnór gerði sér þá lítið fyrir og skoraði fjögur mörk, sem kom honum í hóp markahæstu manna. Markahæstir voru Marel Baldvinsson og Ívar Logi Styrmisson með fimm mörk hvor fyrir Fram. Hans Jörgen Ólafsson skoraði fimm fyrir Stjörnuna.