Vålerenga og Bayern München skildu jöfn, 1:1, í Íslendingaslag í 4. umferð C-riðils Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í Ósló í gærkvöldi.
Bayern er á toppnum í riðlinum með tíu stig og er búið að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum. Vålerenga er áfram á botninum en vann sér inn sitt fyrsta stig í riðlinum.
Sædís Rún Heiðarsdóttir lék allan leikinn fyrir Vålerenga og Glódís Perla Viggósdóttir var fyrirliði og lék allan leikinn fyrir Bayern München.
Jovana Damnjanovic kom Bæjurum í forystu stundarfjórðungi fyrir leikslok áður en Emilie Thorsnes jafnaði metin fyrir Vålerenga tveimur mínútum fyrir leikslok eftir að hornspyrna Sædísar Rúnar frá hægri var skölluð áfram af Emmu Stölen Godö.
Arsenal fékk Juventus í heimsókn í hinum leik riðilsins og vann dramatískan 1:0-sigur. Með sigrinum tryggði liðið sér einnig sæti í átta liða úrslitum en Juventus er úr leik.
Lina Hurtig skoraði sigurmarkið einni mínútu fyrir leikslok.
Manchester
...