Landsliðskokkurinn Gabríel Kristinn Bjarnason gaf út sína fyrstu matreiðslubók í vetur sem ber nafn með rentu, Þetta verður veisla. Hann er þekktur fyrir hæfileika sína í matargerð og kunnáttu til að galdra fram einfalda rétti sem fanga bragðlaukana.
Þetta er matreiðslubók fyrir þá sem finnst gaman að bjóða vinum og fjölskyldu heim í mat en vilja ekki hafa allt of mikið fyrir því. Í bókinni má í raun finna leiðarvísi að því hvernig gera má flottan mat úr hráefni sem gæti til að mynda leynst inni í ísskáp heima og töfra fram veislu á nýstárlegan hátt. Í bókinni má finna frumlegar uppskriftir að smjöri og ídýfum, fingramat og veislupinnum og aðalréttum og eftirréttum svo fátt sé nefnt.