Justin Sun, sem er kínverskur frumkvöðull í rafmyntaheiminum, hefur gefið það út að hann muni á næstu dögum borða banana sem hann keypti á 6,2 milljónir bandaríkjadala sem er jafnvirði nærri 900 milljóna íslenskra króna. The Art Newspaper greinir frá því að bananann hafi Sun keypt á uppboði hjá Sotheby’s í New York í fyrradag sem hluta af listaverki ítalska listamannsins Maurizios Cattelans. Listaverkið sem ber heitið „Comedian“ eða „Grínisti“ samanstendur af banana sem festur er upp á vegg með silfurlímbandi. „Á næstu dögum mun ég borða bananann til að heiðra sess hans í listasögunni sem og í dægurmenningunni,“ er haft eftir Sun.