Eldgos Ljósmyndari blaðsins flaug með þyrlu Norðurflugs yfir gosstöðvarnar snemma í gærmorgun. Glóandi hraunið flæddi meðfram varnargörðunum kringum Svartsengi.
Eldgos Ljósmyndari blaðsins flaug með þyrlu Norðurflugs yfir gosstöðvarnar snemma í gærmorgun. Glóandi hraunið flæddi meðfram varnargörðunum kringum Svartsengi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg

Hraunelfurin frá eldgosinu sem hófst kl. 23.14 í fyrrakvöld var fljót að renna í átt að Grindavíkurvegi, yfir hann og síðan meðfram varnargarðinum sem reistur var til að verja Bláa lónið og önnur mannvirki í Svartsengi. Tignarleg sjón blasti við frá þessu tíunda eldgosi á Reykjanesskaganum á rúmum þremur árum.

Varnargarðurinn sannaði gildi sitt en hraunið náði alla leiðina yfir bílastæði Bláa lónsins og mannvirki sem þar voru. Starfsmenn verktakafyrirtækja voru snöggir til að loka þeim götum sem voru í garðinum fyrir akvegi.

Veðurskilyrði voru þannig í fyrrinótt og gær að gosið sást víða að, allt vestur á Snæfellsnes og mjög vel frá Reykjanesbraut og höfuðborgarsvæðinu. Farþegar í flugi til og frá Keflavík fengu einnig gott útsýni yfir gosið.

Ljósmyndarar Morgunblaðsins hafa verið á ferðinni við gosstöðvarnar og fangað á filmu mikið sjónarspil sem jafnan verður þegar kvikan úr iðrum jarðar leitar upp á yfirborðið. Ekkert lát virðist því á eldsumbrotum

...