Kjartan Magnússon
Samkeppnin um athygli kjósenda er hörð þegar rúm vika er til alþingiskosninga enda margir flokkar á atkvæðaveiðum. Margir frambjóðendur telja það vænlegast til vinnings að lofa lausn á hvers manns vanda með auknum opinberum útgjöldum.
Slíkur málflutningur er ábyrgðarlaus og í engu samræmi við stöðu ríkisfjármála. Áætlað er að halli á rekstri ríkissjóðs verði um 75 milljarðar króna í ár eða 1,7% af vergri landsframleiðslu. Áætlað er að hallarekstur ríkissjóðs muni nema um 59 milljörðum á árinu 2025 eða um 1,2% af VLF.
Ríkissjóður var tímabundið rekinn með miklum halla vegna kórónukreppunnar. Þótt mjög hafi dregið úr hallanum undanfarið er hann enn fyrir hendi. Slíkur halli má ekki verða varanlegur en gæti orðið það ef vinstristjórn tekur við völdum.