Emma Hreiðarsdóttir og Logi Leó Gunnarsson hafa hlotið styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur, en úthlutað var úr sjóðnum í 14. sinn á fimmtudag. Hafa þá 22 listamenn hlotið styrk úr sjóðnum frá því að fyrst var veitt úr honum árið 1995. Sjóðnum er ætlað að styrkja unga og efnilega listamenn en í ár bárust alls 45 umsóknir.
Emma útskrifaðist með meistaragráður frá Royal Academy of Fine Arts í Antwerpen árið 2018. „Í verkum sínum notar Emma innsæi og húmor til að kanna umhverfið og varpar þannig nýju og óvæntu ljósi á aðstæður,“ segir í tilkynningu. Logi Leó útskrifaðist með BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2014. „Logi Leó notar iðulega hljóð sem upphafspunkt verka sinna og þá oft í tengslum við hreyfingu. Saman skapa þessir þættir iðulega spennu sem fangar áhorfandann.“ Þau eru bæði sögð hafa tekið virkan þátt í myndlistarlífinu hér heima og erlendis.