Áframhaldandi og öflugri stuðningur við varnarbaráttu Úkraínu og aukið samstarf Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála voru helstu umræðuefni fundar varnarmálaráðherra norrænu ríkjanna sem fram fór í gær eftir því sem fram kemur á vef Stjórnarráðsins.
Auk fundar í norræna varnarsamstarfinu, NORDEFCO, áttu ráðherrarnir sömuleiðis fund með Eystrasaltsríkjunum og Norðurhópnum svokallaða, þar sem Bretland, Þýskaland, Pólland og Holland eiga sæti. Þá tók Rustem Umerov varnarmálaráðherra Úkraínu einnig þátt í hluta fundanna.
Fundirnir fóru fram 20.-21. nóvember í Kaupmannahöfn. Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sótti fundina í fjarveru utanríkisráðherra.