Stofnað hefur verið til sérstakra sjónvarpsverðlauna og stefnt er að því að þau verði afhent í maí næstkomandi á sérstökum viðburði, að því er fram kemur í tilkynningu. Þrír ljósvakamiðlar standa að verðlaununum, Sjónvarp Símans, Sýn og RÚV, og verða veitt verðlaun fyrir sjónvarpsefni sem frumsýnt er á sjónvarpsstöðvum miðlanna.
Þessi nýju verðlaun eru sögð tilkomin eftir að ákveðið var, í samtali við ÍKSA, að skilja að afhendingu verðlauna fyrir sjónvarpsefni frá afhendingu verðlauna fyrir kvikmyndir á hinni árlegu Edduverðlaunahátíð. Fyrr á þessu ári voru því í fyrsta sinn eingöngu afhent verðlaun fyrir kvikmyndir á Eddunni. Á þessari fyrstu sjónvarpshátíð stendur til að afhenda verðlaun fyrir sjónvarpsefni sem frumsýnt var á árunum 2023 og 2024.