Staðan kom upp í efstu deild, úrvalsdeild, fyrri hluta Íslandsmóts skákfélaga sem lauk fyrir skömmu í Rimaskóla. Soren Bech Hansen (2.274) hafði svart gegn Baldri Helga Möller (1.998). 80. … f4! 81. gxf4 aðrir leikir hefðu ekki heldur komið að haldi. 81. … Bxh4 82. f5 Bg5 og hvítur gafst upp. Friðriksmót Landsbankans – Íslandsmótið í hraðskák hefst kl. 14.00 sunnudaginn 1. desember næstkomandi og stendur til kl. 17.30-18.00. Mótið fer fram í höfuðstöðvum Landsbankans í Reykjastræti 6 og má reikna með að margir af sterkustu skákmönnum landsins taki þátt í því. Tefldar verða 13 umferðir og tímamörkin eru þrjár mínútur að viðbættum tveimur sekúndum fyrir hvern leik. Á skak.is er hægt að skrá sig til leiks en þátttökufjöldi er takmarkaður við 100. Síðastliðinn fimmtudag hófst Skákþing Garðabæjar en því lýkur á morgun.