Stjórnarflokkurinn Georgíski draumurinn vann yfirburðasigur í umdeildum þingkosningum 26. október síðastliðinn. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) sendi fyrir kosningar hundruð eftirlitsmanna til landsins og komu þrír frá Íslandi, þ. á m. fréttastjóri Morgunblaðsins.
Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins eru ferðalaginu gerð skil í máli og myndum, en um var að ræða vikulanga heimsókn til Georgíu.
Í fréttum af kosningunum á sínum tíma var m.a. greint frá tilraun til kosningasvindls þegar ruðst var inn á kjörstað með ólöglega kjörseðla og þeim troðið ofan í kassa. Slíkt gerðist þó ekki á þeim svæðum sem fjallað er um í blaðinu. Þar var hins vegar þrúgandi nærvera Draumsmanna við alla kjörstaði sem haft getur mótandi áhrif á kjósandann, einkum í fámennum sveitum.