Danskir fornleifafræðingar vinna nú að því, undir stjórn Elias Wittes Thomasens og Dorthe Horn, fornleifafræðinga minjasafnanna Vejlemuseerne, að grafa upp heilan bæ frá 5. öld eftir Krist sem fannst við framkvæmdir vegna breikkunar E45-brautarinnar á Austur-Jótlandi.
Mesta athygli hefur heilt vopnabúr vakið, 1.600 ára gömul vopn – sverð, spjót, lensur og örvaroddar, auk hringabrynju sem þá hefur verið rándýr. Áætlar Horn, í samtali við danska ríkisútvarpið DR, að búnaðurinn hefði nægt til að fullvopna lítinn her, 80 til 100 manns telur hún.
„Það er ótrúleg tilfinning að fá að vera með í að grafa hérna og að standa hér með þessa gripi í höndunum,“ segir Thomasen við DR og leynir ekki áhuga sínum, enda fornleifafræðingar með skemmtilegasta viðtalsfólki vegna almenns ódrepandi áhuga.