— Morgunblaðið/Hákon

Nótt er lögð við dag í varnaraðgerðum sem fylgja eldgosinu við Sundhnúkagíga, þar sem hraunelfur hefur runnið að mannvirkjum í Svartsengi. Unnið er að breikkun og hækkun varnargarða þar, svo að glóandi hraun velli ekki yfir þá. Í því skyni er hraunið kælt með því að á jaðar þess er dælt 200 sekúndulítrum af vatni. Slíkt þykir gefa góða raun og bera tilætlaðan árangur, að mati slökkviliðsmanna sem eru á staðnum.

Eldgosið við Sundhnúkagíga sem hófst síðastliðið miðvikudagskvöld er nú heldur í rénun, að mati vísindamanna sem fylgjast grannt með framvindunni. Þrír gígar á eldstöðinni eru enn virkir; sá syðsti og nyrsti en úr honum hefur verið nokkuð stöðugt hraunrennsli. Minnkandi kraftur er í gígnum fyrir miðju sem hefur fætt hrauntröðina sem liggur að Svartsengi. Hættan sem mannvirki þar hafa verið í ætti því heldur að minnka.

Eldgosin

...