Andrúmsloftið virðist læviblandið á þessari loftmynd af kínversku borginni Yinchuan þótt vegfarendum á jörðu niðri þyki líklega fátt spennandi eða dulrænt við ósköp venjulega þoku sem liggur svo myndrænt yfir þessari tæplega þriggja milljóna íbúa borg í sjálfsstjórnarhéraðinu Ningxia Hui í Norðvestur-Kína.
Héraðið á sér ekki ómerkilega sögu, þar hafa 30.000 ára gamlar mannvistarleifar fundist sem tengdar eru hinni ævafornu menningu í Shuidonggou sem er elsti fundarstaður menja frá eldri steinöld í gervöllu Kína og dregur að sér ferðamenn áhugasama um slíkt. Ningxia á sér einnig blóðuga sögu en þar bárust ættbálkar fólks af öðrum uppruna en kínverskum á banaspjót og reyndu kínverskir keisarar ítrekað að koma á friði með hernaðarnýlendum auk þess sem stríðshestar voru ræktaðir í Ningxia. Nú er landbúnaður hins vegar mest áberandi þar.