Guðrún Hafsteinsdóttir segir mörg mál bera á góma í þessu víðfeðma kjördæmi. Nefnir hún t.d. efnahagsmál, vexti, fyrirhugað kílómetragjald og hælisleitendamálin.
„Ég sem sjálfstæðismanneskja myndi vilja sjá ríkið dragast meira saman og það færi meira hér út á hinn almenna markað,“ segir hún.
Hún ver verðmiðann á Ölfusárbrú og segir að brúin þurfi að þola álag eins og til dæmis Suðurlandsjarðskjálfta, krapaflóð og mikið vatnsrennsli. Guðrún gengst við því að hælisleitendamálin hafi farið úr böndunum í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, en segir að upphafið hafi verið þegar útlendingalög voru samþykkt árið 2016 í þverpólitískri sátt. Hún bendir á að hælisumsóknum hafi fækkað um 54% á þessu ári. Hún vill frekar einblína á að taka á móti kvótaflóttamönnum en hælisleitendum. „Ég held að við getum ekki tekið nema á móti einhverjum tugum flóttamanna [á ári] svo vel sé,“ segir Guðrún.