Jólasýning Artóteksins verður opnuð í dag, fimmtudaginn 28. nóvember, milli klukkan 17 og 19 í SÍM-salnum, Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík. Í tilkynningu kemur fram að á sýningunni séu til sýnis verk listamanna sem sé að finna í Artótekinu, samstarfsverkefni SÍM og Borgarbókasafnsins.
„Í Artótekinu er til leigu og sölu myndlist eftir listamenn sem eru félagsmenn í SÍM. Meginmarkmiðið er að gera íslenska samtímalist aðgengilega sem flestum og gefa fólki kost á að leigja eða eignast myndlist á einfaldan hátt. Hægt verður að kaupa verk á staðnum og/eða gera kaupleigusamninga í gegnum Artótekið.“ Þá er sýningin viðbót Sambands íslenskra myndlistarmanna inn í myndlistarflóðið fyrir jól og tekur fyrirmynd m.a. frá Ljósabasar Nýlistasafnsins og jólasýningunni í Ásmundarsal. Er henni bæði ætlað að gera myndlistarfólki hátt undir höfði sem og styðja við myndlistina á aðgengilegan hátt fyrir almenning.