Dyggðir Sagnfræðingurinn Hrafnkell fjallar meðal annars um það sem hann kallar íslenska dyggðasamfélagið.
Dyggðir Sagnfræðingurinn Hrafnkell fjallar meðal annars um það sem hann kallar íslenska dyggðasamfélagið. — Morgunblaðið/Eyþór

Fráhvarf frá dyggðum og andstaða við vald

Í íslensku sveitasamfélagi 19. aldar voru tvenn tímamót í lífi flestra landsmanna sem höfðu afgerandi áhrif á samfélagsstöðu þeirra. Hin fyrri voru fermingin. Til að fermast þurftu börn að uppfylla skilyrði sem sóknarpresturinn, fyrir hönd kirkjunnar og ríkisins, setti um þekkingu á kristnum fræðum og grunnþekkingu í lestri, skrift og reikningi. „Fermingin hafði fyrr á tímum mikilvægu félagslegu hlutverki að gegna í lífi unglingsins. Með henni var unglingurinn „tekinn í fullorðinna manna tölu“ eins og oft var að orði komist. Markaði hún í raun lok bernskunnar á margan hátt. … Í nágrannalöndunum var hlutverk fermingarinnar hið sama og hér á landi, það er að marka inngöngu ungmennis í heim hinna fullorðnu.“ Sjálfsævisöguritarar sem ólust upp á 19. öld lýsa flestir fermingu sinni, bæði athöfninni sjálfri og tilfinningum sem henni tengdust.

...