Evrópuþingið segir þörf á að endurtaka nýafstaðnar þingkosningar í Georgíu og hvetur Evrópusambandið (ESB) til aðgerða gegn Georgíska draumnum, stjórnarflokki landsins. Kosningarnar voru haldnar 26. október síðastliðinn.
Öryggis- og eftirlitsstofnun Evrópu (ÖSE) sendi hundruð eftirlitsmanna til Georgíu í aðdraganda kosninganna og var virkt eftirlit með kosningunum um allt land.
Á kjördag var dæmi um að fulltrúar stjórnarflokksins ryddust inn á kjörstað í þeim tilgangi að troða ólöglegum kjörseðlum ofan í kassana, gefa flokknum þannig fleiri atkvæði. Gerðist þetta í Tíblisi. Við alla kjörstaði fjölmenntu Draumsmenn og er nærvera þeirra sögð hafa beitt hinn almenna kjósanda þrýstingi. Um þetta voru eftirlitsmenn ÖSE sammála.