Erla Þorsteinsdóttir fæddist 8. ágúst 1945. Hún lést 24. september 2024.
Útförin fór fram í kyrrþey frá Fossvogskirkju 10. október 2024.
Sólsetrið var með alfegursta móti síðasta kvöldið í lífi Erlu Þorsteinsdóttur. Snæfellsjökull í rauðri kvöldsól svo skarpur og uppljómaður að það var eins og hann væri við það að ganga á land líkt og skáldið sagði. Jökulinn fagra hafði hún fyrir augum alla ævi. Dýrðin blasir við úr stofuglugga í Eskihlíð og enn tilkomumeiri heilsar hann frá hinni hliðinni í eldhúsglugga á Lambavatni. Snæfellsjökull með alla sína orku, tign og dulúð.
Mamma ólst upp í stórum systkinahópi í Reykjavík. Brún á Stokkseyri var sumardvalarstaður fjölskyldunnar og þar leið henni vel. „Við krakkarnir fórum oft í fjallgöngur með pabba. Hann var svo langt á undan sinni samtíð,“
...