Bach Alfia Bakieva konsertmeistari.
Bach Alfia Bakieva konsertmeistari.

Þrjú verk eftir Johann Sebastian Bach verða flutt á morgun, á fyrsta sunnudegi í aðventu, 1. desember kl. 17 í Hallgrímskirkju. Er um að ræða einsöngskantötu, einleikskonsert á sembal og kantötu fyrir kór, hljómsveit og einsöngvara. Segir í tilkynningu að leikið verði á upprunahljóðfæri í barokkstillingu en Hallgrímskirkja hafi um árabil verið leiðandi í flutningi barokktónlistar á upprunahljóðfæri á Íslandi. Flytjendur á tónleikunum eru Barokkbandið Brák, Alfia Bakieva konsertmeistari, Kór Hallgrímskirkju, Steinar Logi Helgason stjórnandi og Halldór Bjarki Arnarson einleikari á sembal en einsöngvarar eru þau Harpa Ósk Björnsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Bragi Bergþórsson og Fjölnir Ólafsson. Barokkbandið Brák og Kór Hallgrímskirkju munu einnig flytja hluta efnisskrárinnar í útvarpsmessu á tónleikadegi.