40 ára Snæbjörn ólst upp í Setbergshverfinu í Hafnarfirði. Hann útskrifaðist af félagsfræðibraut við Flensborgarskólann í Hafnarfirði og hefur klárað bæði nám í japönsku við Háskóla Íslands og sviðshöfundanám við Listaháskóla Íslands.
Hann hefur búið og starfað við sviðslistir og ritstörf í Japan, Svíþjóð, Belgíu og Frakklandi. Hann hefur komið fram á hátíðum eins og Wiener Festwochen og leiklistarhátíðinni í Avignon og var meðhöfundur að bókaröðinni Þriggja heima saga, en 2012 vann hann ásamt Kjartani Yngva Björnssyni Íslensku barnabókaverðlaunin. Snæbjörn hefur einnig fengist við leikhúsgagnrýni, ýmis ritstörf og komið að stofnun hátíða á borð við Icecon og Hamraborg Festival. Snæbjörn var varaþingmaður fyrir Pírata eftir kosningar 2016 og 2017, rak sýningarrýmið Midpunkt í Hamraborg og var með útvarpsþáttinn Eld og brennistein á X-inu ásamt Heiðari Sumarliðasyni.
...