Jón Torfi Snæbjörnsson fæddist 27. maí 1941 í Hólshúsum, Eyjafirði. Hann lést 19. nóvember 2024. Foreldrar Snæbjörn Sigurðsson frá Garðsá í Öngulstaðahreppi, Eyjafirði, f. 22.8. 1908, d. 17.11. 1991, betur þekktur sem Snæbjörn á Grund, og Pálína Jónsdóttir frá Ólafsfirði, f. 4.4. 1907, d. 21.3. 1982. Systkini: Sigurður, f. 23.4. 1934, d. 26.10. 2006, Hólmfríður, f. 17.2. 1936, Sighvatur, f. 29.6. 1938, d. 9.7. 2022, Ormarr, f. 21.11. 1945, Sturla f. 21.11. 1945, d. 22.3. 2020. Maki Ólöf Margrét Ólafsdóttir, f. 5.6. 1944 á Þrastarstöðum í Skagafirði.

Foreldrar hennar voru Ólafur Magnús Jónsson frá Hlíð í Vestmannaeyjum, f. 15.3. 1914, d. 10.2. 1944, og Anna Margrét Guðleifsdóttir frá Geirmundarhóli í Sléttuhlíð, Skagafirði, f. 14.10. 1916, d. 24.3. 2003. Börn þeirra: Ólafur Örn, f. 25.5. 1964, sonur Gunnar Steinþór, f. 20.3. 1998, dóttir Anna Margarita, f. 15.11. 2007. Pálína, f. 16.5. 1968, dóttir Ugla Huld Hauksdóttir, f. 31.7. 1989. Júlía Þórunn, f. 22.11. 1982, maki Þorgils Heiðar Pálsson, f. 11.3. 1972, sonur Jón Greipur, f. 5.11. 2014. Fyrir átti Júlía tvíburana Njálu Rún og Öglu Rut Egilsdætur, f. 7.9. 2006.

Útförin fer fram í Grundarkirkju í Eyjafirði í dag, 30. nóvember 2024, klukkan 13.

Pabbi bar alla tíð mjög sterkar taugar til Grundar. Hann var mjög náinn föður sínum og var sá sona hans sem starfaði langmest með honum að búinu. Má með nokkrum rétti segja að hann hafi lengi verið hægri hönd hans í búskapnum, enda mjög slitviljugur. Foreldrar hans voru ákaflega atorkusamt fólk og byggðu upp stórbú þar sem áður hafði kotbúskapur stundaður verið. Heimilið var fjölmennt, fjölskyldan stór, vinnufólk margt. Miklu var afkastað. Snæbjörn faðir hans var á tímabili einn stærsti mjólkurframleiðandi landsins. Þetta fólk stóð árum saman í stríði við nágranna sína vegna upprekstrarlands. Tapaði í undirrétti. Vann í Hæstarétti. Alls tók um einn áratug að leiða þessar landamerkjadeilur til lykta. Ég hef grun um þessi átök hafi sett mark sitt á Grundarfólkið.
Sjálfur kynntist ég föður mínum harla lítið framan af. Foreldrar mínir skildu þegar ég var ungur drengur og mér komið í fóstur hjá móðurömmu minni á Siglufirði. Ég minnist þess er pabbi kom í heimsókn að vetrarlagi með strandbátnum Drangi frá Akureyri. Í þann tíð voru samgöngur með nokkuð öðru móti. Ég var mjög spenntur að fá að hitta hann og fór til móts við hann, og er ég sá hann tilsýndar á Vetrarbrautinni hljóp ég áleiðis og beint í fangið á honum. Hann var fáeinar vikur í æfingakennslu við barnaskólann. Það var ætíð mjög snjóþungt á Sigló. Eitt sinn er við komum út úr bíó var svo blint og vitlaust veðrið að ég varð alveg magnlaus og lá við andnauð við að hafa mig áfram gegn norðanbylnum. Slíkt var kófið. Varð pabbi að bera mig í fanginu heim í Grundargötuna. Eldra minningarbrot á ég frá Raufarhöfn. Þar er pabbi að kenna leikfimi, mun eldri krökkum en mér, og veltir mér í kollhnís á dýnu svo ég fór að gráta. Hann var afskaplega fimur, og með þeim allra allra bestu í því að ganga á höndum. Það hef ég bæði séð og heyrt.
Stundum var maður í sveit á Grund á sumrin. Þegar ég var farinn að muna betur eftir sjálfum mér var heldur farin að hníga frægðarsól rjómabúsins á völlunum. Blómaskeiðið að baki. En það var áfram fífill í túni og fuglinn söng. Við krakkarnir vorum látnir reka baulurnar til og frá fjósinu. Aldrei var ég mikið fyrir sveitastörfin. Pabbi var ákaflega leiður yfir því. Sífellt einhver hundshaus á honum. Og ekki var Snæbjörn afi miklu betri. Ég dauð kveið alltaf fyrir smalamennskunni. Grund er víðlend vel og féð var margt. Sá gamli öskraði og orgaði af öllum lífs og sálar kröftum, og setti í raun allt á annan endann. Í rauninni vissi ég sjaldnast alveg fullkomlega við hvaða rollu ég átti að vera að eltast í það og það skiptið, því karlinn hrópaði upp einhverja sauðaliti, sem ég, kaupstaðardrengurinn, kunni engin skil á. Ég bjó ekki yfir orðaforða búvísindanna. Enda voru skammirnar hraustlegar. Síðan hefur mér ætíð verið heldur í nöp við þessa skepnu, kann best við hana í fjarska eins og litla flekki í fjallinu. Pabbi kenndi mér á traktor og maður var látinn slá og raka og fleira í þeim dúr. Best líkaði mér sá hluti heyskaparins er snéri að baggatínslunni. Alltaf var töðuilmurinn ljúfur vel, og ólíkur mjög hinum áleitna tóbaksreyk sem lagði alltof alltof oft frá pabba. Að langmestu og bestu gagni kom ég þó þegar ég dró Pollý systur upp úr mykjupyttinum forðum daga. Hún ætlaði að fara að faðma mig að sér fyrir að hafa lengt ævi sína, en ég kvað það hreinan óþarfa, ég hafði hvort eð er bara verið þarna á staðnum. Eru þið að koma frá Flórída?, kallaði Solla ráðskona kankvís og hlæjandi með garðslöngu í hendinni, þegar við vorum farin að nálgast bæinn.
Foreldrar mínir ákváðu að rugla aftur saman reitum í borginni við sundin bláu í kringum 1980. Pabbi kenndi í Hveragerði og var því sífellt á ferðinni austur fyrir fjall. Mamma vann alla tíð sem hárgreiðslukona á sinni eigin stofu í Sólheimum 1. Ég flutti að norðan til foreldra minna og stundaði Menntaskólann við sund. Við feðgar urðum aldrei nánir. Vorum of ólíkir. Áttum lítt skap saman. Pabbi var ætíð mjög ör, mikill gleðimaður og vínhneigður líkt og faðir hans var. Það átti einkar vel við hann að vera innan um fólk, ekki síst ef vín var haft um hönd og gleðskapur í boði. Hann var ákaflega félagslyndur. Hann þekkti her manns og var sífellt einhvers staðar á ferðinni að hitta ættfólk, vini og kunningja og redda hinu og þessu. Í raun var móðir mín gjörólík honum, algjör andstæða. Þau skiptu oft um húsnæði, og þá kom sér vel að hann gat lagað ýmislegt sjálfur, en ég aðstoðað hann.
Árið 1985 urðu stór kaflaskil í sögu fjölskyldunnar. Þá um sumarið kaupa foreldrar mínir Lónkot í Skagafirði. Átti móðuramma mín talsverðan hlut í þeim gjörningi. Frétti ég ekki af kaupunum fyrr en ég kom til landsins seinni hluta ágúst úr heilmiklu ferðalagi um Ameríkur báðar. Sagði karl faðir minn mér af kaupunum er hann sótti mig á völlinn og var talsvert upprifinn. Hann var ör mjög og hafði mikinn áhuga á framkvæmdum. Það varð úr að ég framlengdi frí mitt frá Háskóla Íslands og hélt á vit ævintýranna. Kannski var ég sjálfur ævintýramaður að nokkru leyti. Samstarf okkar feðganna norður þar spannaði tæpa þrjá áratugi, að vísu með smá hléum. Lónkot var örreytis kot í mjög mikilli niðurníðslu. Pabbi var byrjaður að gera upp gamla bæinn þegar ég kem þar norður með honum. Það var mikil drift í þeim gamla, og áhugann vantaði alls ekki. Í mörg horn að líta við uppbyggingu staðarins. Ég aðstoðaði hann við allar þessar verklegu framkvæmdir, og tók í raun ástfóstri við staðinn. Hafði ég komið þarna oft í gamla daga með móðurömmu minni og fóstra, en hún þekkti gamla bóndann, sem var gamall sveitungi hennar frá fyrri tíð. Í raun þurftum við að byrja þarna alveg frá grunni í orðsins fyllstu merkingu. Pabbi var ætíð mikið á fartinni að redda málunum, og tókst að hafa upp á smið þarna í sveitinni, Kidda á Skálá. Var það mikill happafundur, því Kiddi var gull af manni og vann okkur afskaplega vel, og án alvöru smiðs hefðum við aldrei getað gert þetta sómasamlega. Einnig var Kiddi einn af smiðunum sem fengnir voru til að stækka Grundarbústaðinn, en þar eyddi faðir minn gjarnan talsverðum tíma. En lungann úr árinu vann pabbi hjá Strætisvögnum Reykjavíkur.
Með tímanum komst Lónkot í sviðsljósið. Pabbi hafði ákveðið að breyta útihúsunum í fiskverkunarhús og hafið hafnarframkvæmdir með því að láta grafa í gegnum malarkamb og inn í eitt af þeim lónum, sem bærinn heitir eftir. Þar var útbúin smábátahöfn. Þegar mest var voru þarna einir fjórir bátar frá jafnmörgum bæjum. Þetta þótti fréttnæmt. Eigi samþykkti þó Ægir karlinn þessar framkvæmdir möglunarlaust og gerði harla lítið með þessi mannanna verk. Pabbi þráaðist þó við í mörg ár, en varð að lokum að játa sig sigraðan í þessu máli. Við tók ferðaþjónusta, sem varð öllu langlífari. Enda mun oft vera öruggara að eiga sitt á þurru. Það þótti einnig fréttnæmt þegar fiskverkunarhúsunum var breytt í gisti- og veitingahús. Sagði okkur maður nokkur að nafni Þórhallur Halldórsson, sem tekið hafði út slíka aðstöðu í um fjóra tugi ára, að hann teldi sig muna rétt að þetta væri fyrsti staður á sveitabæ hérlendis sem hefði upp á að bjóða gistingu og fullt vínveitingaleyfi. Pabbi lét hanna golfvöll, sem hét Golfvöllurinn á 66 norður. Sá hann alla jafna sjálfur um að slá völlinn og var það eitt og sér ærinn starfi. Einnig lét hann reisa stærsta tjald á Íslandi, sem ég gaf nafn og nefndi Tjald galdramannsins. Það setti stóran svip á staðinn, og var erfitt að aka fram hjá bænum án þess að taka eftir tjaldinu, sem sett var upp á sumrin, en tekið niður á haustin. Mesta framkvæmdin var þó sú sem minnst lætur yfir sér, en mun þó endast einna lengst alls þess sem framkvæmt var í Lónkoti: tvíbreið heimreið með bundnu slitlagi. Minnir mig að ég hafi heyrt að í kringum fjögur hundruð bílar hafi farið í hækkun og breikkun á gömlu heimreiðinni. Að sjálfsögðu hristi pabbi slíka stórframkvæmd ekki fram úr erminni hjálparlaust. Hans vinna fólst oft á tíðum ekki síður í því að tala við menn og tala þá helst á sitt band. Þannig var samþykkt að veita það sem kalla má opinberan stuðning við þessa framkvæmd á þeim forsendum að staðurinn legði eitthvað á móti. Og það taldi pabbi sig gera. Hann kallaði sig oft í gamni og alvöru innheimtumann ríkissjóðs, því áður en gisti- og veitingarekstur var hafinn ár hvert í kotinu varð að greiða dýr rekstrarleyfi áður en nokkrar komu tekjurnar. Síðan varð að sjálfsögðu að greiða skatta og skyldur af innkomunni. Að sjálfsögðu voru þessar framkvæmdir hugsaðar til þess að efla ferðaþjónustuna og auka veg hennar og vinsældir.
Oft var pabbi í sumarbústað sínum á Grund í Eyjafirði. Þaðan sá hann vel yfir hið forna höfuðból Grund. Oft hitti hann Sigga bróður sinn á Höskuldsstöðum, sem rétti honum oft hjálparhönd. Hann var vanur að koma við á mörgum bæjum, því hann átti margt frændfólk , vini og kunningja frá gamalli tíð. Fór hann bæði að hitta þá lifandi og kveðja þá liðna. Hann var sífellt á ferðinni einhvers staðar. Ég titlaði mig staðarhaldara í Lónkoti og hafði í mjög mörgu að snúast þar. Þetta bras okkar feðga í kotinu í gegnum tíðina veitti mér ákaflega mikla ánægju, og einnig verulega útrás fyrir sköpunarþörf, sem flest öllum mönnum er í blóð borin, á einn eða annan veg. Auðvitað voru svo ólíkir menn sem við feðgar fráleitt sammála um alla skapaða hluti, en í heildina tekið má segja að samstarf okkar hafi verið furðugott og gjöfult á köflum. Mér þótti að vísu stundum nóg um framkvæmdavímuna og bægslaganginn í karlinum og hélt hann myndi þá drepa mig með vinnu. Hann átti það gjarnan til að þenja allt til hins ýtrasta og setja allt í uppnám. Hefur honum þá eflaust tíðum verið hugsað til föður síns, stórbóndans á Grund, og viljað starfa í anda hans með framkvæmdagleðina að vopni. Ekki heppnuðust öll fyrirtæki hans, en með dyggri aðstoð konu sinnar, sem var honum styrk stoð í þessu öllu saman, var ósigri forðað.

Og nú er þessi gamli ökuþór kominn á eilífðarbrautina eins og sagt er. Veraldarvafstur að baki, heilsuleysi líka. Pabbi eyddi drjúgum hluta ævinnar undir stýri og hefur, án alls vafa, farið einhverjar ferðir til tunglsins á sinn sérstaka hátt að sjálfsögðu. Hann var fyrir löngu ráðinn í að hvíla á Grund. Ég öfunda hann eilítið að fá að hvíla á þessum sögufræga stað, og ég sagði það við hann í den. En ég veit að hann á það fullkomlega skilið karlinn. Nógu lengi og mikið var hann búinn að strita í moldinni og erja jörðina þar. Nú verður pabbi á Grund og í Grund allar árstíðir héðan af. Kominn endanlega heim aftur á þann mikla stað sem hann bar ævinlega mjög sterkar taugar til.

Ólafur Örn Jónsson

Bíddu pabbi, bíddu mín, bíddu því ég kem til þín sönglaði ég fyrir sunnan á leiðinni til pabba fyrir norðan, flaug svo niður fjarðarskurðinn að vellinum þar sem hann beið mín, hljóp í fang hans og tókst aftur á loft í örmum hans. Á malarveginum fram eftir, kallaði ég úr aftursæti Willys-jeppans: ,,Hraðar, hraðar, keyrðu hraðar pabbi! og pabbi gaf í til að þóknast lágvaxna, óþreyjufulla farþeganum og brosti tindrandi brosi svo sá í fagraskarðið á milli tannanna í baksýnisspeglinum. Því fylgdi hamingja að koma til pabba á Grund. Þar var hann bóndi sem annaðist jörðina, fólkið og dýrin og kenndi á veturna, aðallega stærðfræði. Hann var sívinnandi á Grund svo það gat verið snúið að fá tíma í ró og næði með pabba þannig að þegar ég var orðin langeygð eftir honum frá slættinum á sumarkvöldum hljóp ég ófá skipti niður að Eyjafjarðará með kvöldhressingu og Camel filterlausan, prílaði upp í traktorshúsið þar sem hann sat sveitabrúnn og sætur og keyrði með honum inn í sólarlag endalausra engja við ána. Mér fannst gaman í heyskapnum með pabba og varð honum tryggur fylgismaður við baggatínsluna, fannst hrósið gott um hraða og hreysti því dugnað mat hann mest, en best þótti mér að liggja uppi á heyvagni við hlið hans með strá í munnvikinu, pírandi augun fyrir sólinni að kankast á við hann á leiðinni í hlöðuna. Á hvíldardegi var það svo einhverju sinni að við vorum úti í garði í sólskininu að pabbi fór að leika fimleika kúnstir. Eftirminnilegast er að hafa séð hann sitja flötum beinum í grasinu, hífa sig upp á tíu fingrum, beygja undir sig fæturna án þess að snerta jörðina, hvolfa sér fram og rétta svo úr fótunum beint upp í loftið í handstöðu. Ég varð orðlaus af undrun. Ég hafði ekki hugmynd um þessa hæfileika hans, enda var hann smá sparipabbi sem ég hitti mest á sumrin og í fríum. Því næst gekk hann á höndum og ekki bara á jafnsléttu heldur upp stigann í pakkhúsinu, sem þá var kallað, norðan megin í stóra Grundarhúsinu. Töfrapabbi hefði passað í sirkus Billy Smart, hugsaði ég, svo hæfileikaríkur fannst mér hann. Enda var honum margt til lista lagt, söng í Pólýfónkórnum, hóf dansferilinn tveggja vetra gamall út á túkall fyrir gesti og gangandi á stórbýlinu, tefldi skák og sagði sögur sem hann spann gjarnan upp úr sér við mig litla fyrir svefninn. Pabbi var lifandi persóna, opinn, hlýr, skarpur og skapandi og áhugasamur um svo margt, menn og málefni sem hann gat haft afgerandi skoðanir á. Hann elskaði landið sitt, sér í lagi hálendið, og fór þangað stundum með erlent ferðafólk og mig, á mínu fyrsta skólaári, þar sem ég heillaðist af sinfónískum heimi náttúrunnar sem leysti úr læðingi ævintýraþrá sem hefur fylgt mér æ síðan. Pabbi var alltaf á ferðinni, hann sagðist vera búinn að fara hringinn í kringum jörðina í kílómetrum talið undir stýri og ófáar ferðir fórum við á milli landshluta þar sem kennarapabbi hélt ávallt tölu um heiti fjalla, áa, náttúrufyrirbæra, bæjarheita og sagna sem framhjá liðu á ferðinni. Alls staðar þar sem áð var þekkti pabbi fólk sem hann tók tal við. Hann var félagslyndur kumpáni, málglaður með meiru og stríðinn, dansaði á línunni myndu sumir segja hvað komment og athugasemdir áhrærir, glotti prakkaralega og tók stundum andköf yfir því hvað hann væri hnyttinn og fyndinn, bæði á kostnað annarra en ekki síður sjálf sín. Hann var sagnaglaður og lagði mikið upp úr því að segja skemmtisögur, helst með góðri lokasetningu sem broddur var í, til þess að fá alla til þess að hlæja. Hann þreyttist ekki á því að endurtaka uppáhalds sögurnar og brandarana þó heimilisfólkið væri hætt að nenna að taka undir og gaut í það mesta augunum að honum sem nægði alveg því þá vissi hann að hann hafði náð athyglinni og náði að smita okkur öll með dirrandi hlátrinum svo ekki var annað hægt en að hlæja með honum. Pabbi var ættfróður og sérlega frændrækinn. Hann kenndi mér ættartöluna í föðurætt þegar ég var fimm ára sem mikið spaug átti eftir að verða úr því einhverju sinni stóð ég ein í stoppiskýli á leið í ballett, sex ára gömul, þegar maður sem einnig beið eftir fjarkanum vatt sér að mér og spurðu mig til nafns. Það stóð ekki á svari og á eftir skýrnarnafninu þuldust níu ættliðir úr framætt föðurleggs. Maðurinn spurði ekki meir. Pabbi veltist um af hlátri þegar hann heyrði þetta og rifjaði oft upp síðar meir. Hann var líka alltaf að kynna mig fyrir nýjum og nýjum ættingjum úr sínum stóra ættboga og ef inn á heimilið kom ný vinkona var ætíð spurt hverra manna viðkomandi væri. Hann lék sér að því að tengja fólk saman, helst til þess að uppgötva nýja ættingja og fannst skipta máli að vita deili á fólki. Pabbi var mannelskur og næmur á fólk og mátti ekkert aumt sjá. Þegar hann keyrði strætó fengu allir far, hvort sem þeir borguðu eða ekki, hann leit á starf sitt sem þjónustu við alla sem þurftu að komast leiðar sinnar, hann sá alla og var vinsæll á meðal samstarfsfólks. Pabbi var framfarasinni og frumkvöðull sem bjó yfir sköpunarkrafti og framkvæmdagetu til að útfæra hugmyndir sínar. Hann vildi leggja sitt af mörkum og var hvatamaður að því að borað væri eftir heitu vatni í Skagfirsku sveitinni hans þar sem hann fann sköpunargleðinni farveg í Lónkoti sem hann keypti með mömmu eftir að þau tóku saman á ný eftir tíu ára pásu. Þar byggði hann upp vinsæla ferðaþjónustu í samstarfi við fjölskylduna með gistingu og veitingahúsi sem framreiddi krásir úr matarkistu Skagafjarðar. Hann var höfðingi heim að sækja og naut þess að vera í gestgjafa hlutverkinu en aftur á móti var hann vonlaus í bísness því honum var eðlislægt að gefa allt sem hann átti. En pabba þótti nú ekki leitt að vera með fyrsta veitingastaðinn með vínveitingaleyfi á sveitabýli og sást oft til hans við Víking-kranann að skenkja sér einn hálfan á leiðinni út í smók. Þessi ævintýralega framkvæmda- og athafnagleði leiddi af sér útgerð og hafnargerð, níu holu golfvöll og samkomutjald í túnfætinum sem var nýtt undir mannfögnuði af ýmsu tagi þar sem fjölskyldumót voru haldin og landsþekktir listamenn og hljómsveitir komu fram. Þessi athafnagleði hans var stórt framlag sem margir áttu eftir að njóta og þakka honum fyrir. Inni í pabba bærðust stórar tilfinningar, það var áþreifanlegt, og ég tel að hann hafi verið ofurnæmur sem er bæði blessun og böl. Hann hafði einstakt innsæi og vissi einhvern veginn alltaf hvernig öllum leið en átti oft erfitt með að tjá eigin tilfinningar, hann ólst ekki upp við það, svo man vissi ekki alltaf hvernig honum leið innanbrjósts. Ég dreg þá ályktun að öll verk pabba hafi verið knúin áfram í leit að betra lífi því hann sagði svo oft ,,hver er sinnar gæfu smiður og víst er að hann var ötull við smíðarnar. Hvort hamingjan kom alltaf í leitirnar er ekki mitt að segja, en við mig sagði hann með áhersluþunga, vor eitt í miðri gráslepputíð, þegar ég kom til hans í kotið eitthvað angurvær svo hann leit mig fast sínum skörpu augum þar til mér var ekki stætt á öðru en að segja allt af létta: ,,Pollý mín, mundu alltaf að velja eigin hamingju. Ég vona að ég hafi sagt pabba það nógu oft hvað ég elska hann heitt og hvað kærleikur hans, orð og örlæti þýddu fyrir líf mitt, man er nefnilega það sem pabbi segir við man. Seinustu árin var mér kært að geta boðið pabba á Grund í sumarhúsið góða sem hann gaf mér svo hann gæti horft yfir landið sem hann unni undir rótum Kerlingar og rifjað upp minningar og sögur af ættingjum, Sturlungum og höfðingjum sem honum fannst mikið til koma, ekki síst föður síns, Snæbjörns. Hinsti gerningur pabba verður haldinn í Grundarkirkju, 30. nóvember. Á Grund mun hann hvíla á meðal ættmenna sinna í grafreit staðarins.




Pálína Jónsdóttir.