Veðurstofan vekur athygli á mögulegri snjóflóðahættu á Austfjörðum á vef sínum. Tekið er fram að um stórt svæði sé að ræða og ekki sé endilega snjóflóðahætta í byggð að svo stöddu.

„Spáin er gerð fyrir stór landsvæði og þarf ekki að vera lýsandi fyrir snjóflóðahættu í byggð. Hún er einkum gerð með ferðafólk í fjalllendi í huga og tekur bæði til snjóflóða af mannavöldum og veðurtengdra snjóflóða,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Hættan á snjóflóðum á svæðinu er sögð töluverð en vöktun var aukin um helgina vegna veðurs í landsfjórðungnum.

Talsverður nýr snjór safnaðist saman á laugardag og sunnudag í NA- og N-hríð og skafrenningi. Vindflekar myndast í suðlægum og vestlægum áttum, sem geta verið óstöðugir um tíma.

Eldri snjór er frekar þunnur en stöku flekar hafa safnast í skorninga og gil.

Síðasta þriðjudag setti göngumaður af stað lítið flekaflóð við Grjótárdal í Hólmatindi í Reyðarfirði.