Gasmengun af völdum brennisteinstvísýrings var í gær enn yfir heilsuverndarmörkum á gasmæli á Húsafelli, austan Grindavíkur.
Gasmengun frá eldgosinu í Sundhnúkagígaröðinni barst til suðurs og suðsuðvesturs í gær, meðal annars yfir Grindavík.
Eldgosið heldur áfram með svipuðu móti og undanfarna daga og lítil breyting er á óróagögnum að mati Veðurstofunnar en hraun flæðir áfram til suðausturs frá nyrsta gígnum, að Sandhóli og Fagradalsfjalli.
Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands, tjáði mbl.is um helgina að engin sérstök merki væru um aukna eða dvínandi gosvirkni.