Ísland
Fjölskyldan flutti síðan aftur til Ísafjarðar, Þórir fór á sjóinn og Auri settist enn og aftur við færibandið í Efra Íshúsinu. Hún hafði ekki unnið þar lengi að þessu sinni þegar eldri maður sem vann annars staðar í húsinu tók upp á því að ganga gegnum vinnslusalinn öðru hverju og grípa um brjóstin á henni í hvert sinn sem hann gekk framhjá henni. Hann átti ekkert annað erindi inn í salinn. Hún vissi ekki við hvern hún gæti kvartað og bar sig upp við Þóri sem kom í frystihúsið og spurði manninn hvað þetta ætti að þýða. Hann þrætti ekki en sagði að þetta væri ekki illa meint, hann hefði bara ætlað að vera vingjarnlegur. Íslenskukunnátta Auriar styrktist fljótt og hún furðaði sig á því hvað fólk gat slúðrað um aðra, oft á neikvæðum nótum. Hver svaf hjá hverjum, hvernig þessi eða hinn hefði ráð á að kaupa nýjan bíl eða hús og annað í þeim dúr. Hún nennti ekki að taka þátt í þannig samræðum og sat gjarnan og
...