Kjósendur höfnuðu vinstri flokkum og skattahækkunum
Margt má lesa í niðurstöður alþingiskosninga og raunar má segja að í þeim felist ákveðin þáttaskil í íslenskum stjórnmálum. Þeir flokkar sem eftir lifa á þingi geta allir fagnað einhvers konar sigri, sumir juku mjög við sig fylgi en aðrir geta glaðst yfir varnarsigri, nú eða aðeins því að hafa haldið velli.
Tveir flokkar sópuðust út af þingi, Vinstri grænir og Píratar, en eins kom á daginn að Sósíalistaflokkurinn átti talsvert í að komast á þing.
Það er ástæðulaust að sýta það, gæði þingstarfa og lífvænleiki ríkisstjórna hefur ekki aukist með fjölda flokka á þingi, öðru nær.
Brotthvarf Pírata, sem spruttu upp úr ólgu bankahrunsins, markar á sinn hátt einnig þau tímamót að eftirhrunsárunum er lokið. Þó fyrr hefði verið, myndu sumir segja.
...