— Morgunblaðið/Ólafur Árdal

Ætla má að í margra vitund fari jólin að nálgast þegar ljósin á Óslóartrénu á Austurvelli í Reykjavík eru tendruð. Sú hátíð var í gær, en tréð, sem kom sem gjöf frá norsku höfuðborginni, var fellt í Heiðmörk fyrr í þessum mánuði. Þetta er 12 m hátt sitkagreni, með 20.000 ljósum og 120 gylltum jólakúlum. Margmenni, ungir sem aldnir, var í miðborginni á hátíð þessari, þar sem hin norska Mehmet Khan Inan borgarfulltrúi flutti kveðju frá Óslóarborg og afhenti norskar barnabækur sem hafa verið þýddar á íslensku, sem gefnar verða á skólabókasöfn í grunnskólum Reykjavíkur. Það voru svo Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Herborg Anda, 11 ára gömul, sem tendruðu ljósin á jólatrénu, sem er borgarprýði.