Ísland vann í gærkvöld sinn fyrsta leik frá upphafi í lokakeppni Evrópumóts kvenna í handknattleik en íslenska landsliðið bar þá sigurorð af Úkraínu, 27:24, í F-riðli mótsins í Innsbruck í Austurríki.
Íslenska liðið komst í 3:0 á upphafsmínútum leiksins og var með forystuna frá upphafi til enda. Stúlkurnar fóru langt með að tryggja sér sigurinn með góðri frammistöðu í fyrri hálfleik, þar sem mest munaði átta mörkum á liðunum, en staðan var 16:9 að honum loknum. Úkraínska liðið náði mest að minnka muninn niður í þrjú mörk seint í leiknum.
Úrslitin þýða að Ísland mætir Þýskalandi í hreinum úrslitaleik annað kvöld um sæti í milliriðli keppninnar.
Eftir tvær umferðir er Holland komið áfram úr riðlinum með fjögur stig en Þýskaland og Ísland eru með tvö stig hvort. Holland vann Þýskaland, 29:22, í fyrri leik riðilsins í gær. » 35