14 Skarphéðinn Ívar Einarsson skoraði 10 mörk í gær og 4 á laugardag.
14 Skarphéðinn Ívar Einarsson skoraði 10 mörk í gær og 4 á laugardag. — Morgunblaðið/Hákon

Haukar komust frekar auðveldlega í 16-liða úrslit Evrópubikars karla í handknattleik þegar þeir unnu Kür, 38:27, í seinni leik liðanna í Aserbaídsjan í gær. Haukar unnu fyrri leikinn á laugardaginn, 30:25.

Leikurinn í gær var þó jafn framan af en Haukar komust í 16:13 undir lok fyrri hálfleiks. Þeir gerðu síðan út um einvígið á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks þegar þeir komust í 26:17 og eftirleikurinn var auðveldur.

Skarphéðinn Ívar Einarsson skoraði 10 mörk úr jafnmörgum skotum í gær, Freyr Aronsson skoraði sex mörk og Össur Haraldsson fjögur.

Í fyrri leiknum á laugardag, sem taldist vera heimaleikur Hauka, skoraði Sigurður Snær Sigurjónsson sex mörk og þeir Össur og Skarphéðinn fjögur hvor.

Í þeim leik lentu Haukar þremur mörkum undir seint í fyrri hálfleik en jöfnuðu í 13:13 fyrir hlé og voru með nauma forystu allan síðari hálfleikinn.