Joe Biden Bandaríkjaforseti greindi frá því á sunnudagskvöldið að hann hefði náðað son sinn, Hunter Biden, en Hunter beið þá þess að vera ákvörðuð refsing í tveimur sakamálum sem hann var dæmdur sekur í.
Biden hafði áður heitið því að hann myndi ekki náða son sinn, en sagði í yfirlýsingu sinni að sér hefði snúist hugur, þar sem hann teldi að sonur sinn hefði einungis verið sóttur til saka fyrir fjölskyldutengsl sín.
Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseti gagnrýndi ákvörðun Bidens og sagði að hann myndi „laga dómskerfið“ þegar hann tekur við embætti í janúar nk. Þá endurtók hann loforð sitt um að leysa úr haldi þá sem hafa verið dæmdir fyrir árásina á þinghús Bandaríkjanna 6. janúar 2021.