Niðurstöður kosninganna síðastliðinn laugardag sýna svo ekki verður um villst að kjósendur vilja breytingar. Það er í anda þess sem við í Viðreisn höfum fundið fyrir í vaxandi mæli síðustu vikur og mánuði í samtölum okkar við fólk. Og fyrir þau samtöl erum við mjög þakklát. Niðurstöðurnar marka líka sögulegan áfanga fyrir Viðreisn. Við rúmlega tvöfölduðum þingflokkinn þegar við fórum úr fimm þingmönnum í ellefu og í fyrsta skipti í átta ára sögu okkar eigum við kjördæmakjörna þingmenn í öllum kjördæmum. Þennan sigur eigum við ekki síst að þakka jákvæðri og málefnalegri kosningabaráttu sem var borin uppi af sterkum frambjóðendum og starfsfólki og öflugum og samstilltum hópi sjálfboðaliða úr öllum kjördæmum. Ég er stolt og þakklát yfir því að tilheyra þeim góða hópi.
Við í Viðreisn erum mjög þakklát fyrir það traust sem okkur hefur verið sýnt. Nú tökumst við af auðmýkt á við að reyna að mynda
...