Mun fleiri starfsmenn hafa misst vinnuna í hópuppsögnum á fyrstu ellefu mánuðum ársins en á árunum 2021, 2022 og 2023. Alls hefur 943 verið sagt upp í hópuppsögnum frá áramótum til nóvemberloka á þessu ári. Á öllu seinasta ári bárust Vinnumálastofnun 18 tilkynningar um hópuppsagnir þar sem 735 einstaklingum var sagt upp störfum. Þeir voru 229 á árinu 2022 og 497 var sagt upp í hópuppsögnum á árinu 2021. Hrina hópuppsagna varð hins vegar í covid-faraldrinum á árinu 2020 þegar 8.789 misstu vinnuna í hópuppsögnum. Á árinu 2019 var 1.046 starfsmönnum sagt upp í 21 hópuppsögn.

Flestir sem sagt hefur verið upp í hópuppsögnum á yfirstandandi ári störfuðu í iðnaði eða 260, 201 starfaði í fiskvinnslu og 146 í opinberri þjónustu. omfr@mbl.is