Tríóið Meraki kemur fram á tónleikum Jazzklúbbsins Múlans í kvöld, 4. desember, kl. 20 í Björtuloftum Hörpu. Tríóið er skipað þeim Rósu Guðrúnu Sveinsdóttur, sem syngur og leikur á flautu og barítónsaxófón, Söru Mjöll Magnúsdóttur, sem leikur á píanó, og Þórdísi Gerði Jónsdóttur á selló. Þær eru, í tilkynningu, sagðar spila „eigin tónsmíðar sem teljast til nokkuð hefðbundins jazz en með óvenjulegri hljóðfæraskipan auk frumlegra og leikglaðra útsetninga er lögunum léður ferskur blær.“