Lífið er, eins og Milan Kundera sagði, ganga inn í þoku, þar sem við sjáum allt skýrt þegar við horfum um öxl en óglöggt hitt sem fram undan er. En hugsanlega marka þingkosningarnar 30. nóvember tímamót í stjórnmálasögunni. Nú er aðeins einn yfirlýstur vinstriflokkur eftir á þingi með 21 af hundraði atkvæða, Samfylkingin, en undir nýrri forystu hefur hann hallast talsvert til hægri. Allt frá því í þingkosningunum 1931 hafa fjórir flokkar keppt um atkvæði kjósenda, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag (og forverar þess, kommúnistaflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn).
Það er álitamál hvort þessum fjórum flokkum fækkaði í þrjá árið 1999, þegar Samfylkingin var stofnuð með samruna Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og tveggja smáflokka, eða hvort það gerðist núna, þegar Vinstri grænir duttu af þingi. Var hinn rétti arftaki Alþýðubandalagsins
...