Þórir S. Gröndal
Á mínu bernskuheimili var ekki allt of mikið um faðmlög og kossa. Við vorum sjö systkinin og eflaust var ég faðmaður og mér hossað mikið þegar ég var yngstur, en svo fæddist næsta barn og þá var allt búið hjá mér. Ekki það að mikil væntumþykja milli allra væri ekki fyrir hendi, en það tíðkaðist ekki hjá okkur að vera sífellt að sýna hana. Faðmlög og kossar voru mest í brúki á afmælum og hátíðisdögum.
Mér er mjög minnisstætt mitt fyrsta alvörufaðmlag. Þegar ég var níu ára var ég sendur vestur á Flateyri til að eyða stríðssumrinu 1941 hjá Rannveigu ömmu minni. Þetta var mikil ævintýraferð, því ég fór með skútunni Hamónu, sem var á leið til Ísafjarðar. Úti fyrir Önundarfirðinum var ég handlangaður um borð í vélbátinn Sigurfara frá Flateyri, en hann var að koma úr róðri. Amma var orðin óróleg og hafði ekkert heyrt, og þegar ég birtist
...