Skaupið Framleiðsluteymið Garún Daníelsdóttir, Ingimar Guðbjartsson, María Reyndal og Baltasar Breki Samper á síðasta tökudeginum í gær.
Skaupið Framleiðsluteymið Garún Daníelsdóttir, Ingimar Guðbjartsson, María Reyndal og Baltasar Breki Samper á síðasta tökudeginum í gær. — Morgunblaðið/Eggert

Síðasti tökudagur á Áramótaskaupinu 2024 var í myndveri í útvarpshúsinu við Efstaleiti í gær. Tökur gengu vel og nú tekur við klipping og eftirvinnsla. Útkoman verður svo lögð í dóm þjóðarinnar á gamlárskvöld.

„Við byrjuðum 18. nóvember og höfum tekið þetta í nokkrum skorpum síðan þá,“ segir Ingimar Guðbjartsson framleiðandi skaupsins. Leikstjóri og aðalhandritshöfundur er María Reyndal en meðal annarra höfunda eru Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Friðgeir Einarsson.

Ingimar kveðst aðspurður telja að vel hafi tekist til við að ná utan um viðburðaríkt ár. „Já, ég held að við séum að ná nokkuð vel yfir þetta, slitna ríkisstjórn, týnda ketti og fleira. Það hefði verið hægt að gera nokkur skaup, slíkur var efniviðurinn, en við þurftum á einhverjum tímapunkti að gera bara okkar skaup. Vonandi farnast því ágætlega.“ hdm@mbl.is