Skáldsaga Breiðþotur ★★★★½ Eftir Tómas Ævar Ólafsson. Benedikt, 2024. Innbundin, 308 bls.
Bækur
Snædís
Björnsdóttir
Ný skáldsaga Tómasar Ævars Ólafssonar Breiðþotur hefur þegar vakið töluverða athygli og hlotið lofsamlega dóma. Heimildin sagði hana meðal annars vera bókmenntaleg tíðindi. Að lestri loknum get ég ekki annað en tekið undir þau orð.
Bókin segir frá vinunum Lofti, Umba og Fransisku sem alast upp í litlu þorpi úti á landi. Dag einn, án viðvörunar, skekur gríðarstór gagnaleki alla heimsbyggðina. Viðkvæmir vinnupóstar og háleynileg skjöl eru afhjúpuð; heilu sveitarfélögin leggjast á hliðina og það sama gildir um ýmsar stofnanir. Dularfull samtök lýsa yfir ábyrgð á verknaðinum og krefjast róttækra aðgerða í loftslagsmálum. Þau hóta öðrum leka að tíu árum liðnum ef kröfunni verður ekki mætt.
...