Sérsveit ríkislögreglustjóra (RLS) stóð á dögunum fyrir námskeiði sem eykur getu sérsveitarmanna til að sinna bráðaviðbrögðum á vettvangi. Í því tóku þátt sérsveitir frá Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og Bandaríkjunum, en mikil áhersla var lögð á að skapa raunverulegar aðstæður sem krefjast þess að teknar séu ákvarðanir undir miklu álagi. Kemur þetta fram í tilkynningu frá RLS.
„Þátttakendum var skipt í þrjú lið sem tóku þátt í þremur sviðsettum og krefjandi verkefnum á þremur dögum; skotárás í Hvalfjarðarsveit, hryðjuverkaárás á Keflavíkurflugvelli og hnífaárás um borð í Herjólfi. Hvert verkefni tók um fjórar klukkustundir og lék veðrið einnig stórt hlutverk í æfingunum,“ segir þar, en alls tóku 19 manns þátt í námskeiðinu auk 20 sem léku fórnarlömb. Þá voru leiðbeinendur 25 talsins.
Fleiri komu að æfingunum, s.s. Landspítali og Landhelgisgæslan.