Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að það sé góður gangur í stjórnarmyndunarviðræðum Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins. Hún segir að stærsti málaflokkurinn sé efnahagsmálin og að ný afkomuspá ríkissjóðs – um að halli á ríkissjóð verði meiri á næsta ári en upphaflega var áætlað – hafi að vissu leyti tafið viðræðurnar.
Heildarafkoma A1-hluta ríkissjóðs árið 2025 er nú áætluð neikvæð um 1,2% af vergri landsframleiðslu. Er það lakari afkoma en áætlað var við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í september og fjármálaáætlunar 2025-2029 í apríl.
„Auðvitað hjálpuðu ekki þessar nýjustu tölur frá fjármálaráðuneytinu varðandi afkomuna. Þær gera verkefnið snúnara og má segja að það hafi aðeins tafið okkur. En það er bara áskorun og verkefni sem við tökum af festu og ábyrgð og hæfilegri bjartsýni,“ segir Þorgerður
...