Í safneign Listasafns Íslands eru fjögur málverk eftir Berthu Wegmann sem bárust safninu árið 1929 úr dánarbúi listakonunnar, en safnið var í hópi norrænna listasafna sem hún ánafnaði verk sín. Wegmann stundaði framhaldsnám í Þýskalandi þar sem hún bjó um árabil auk þess að dvelja langdvölum í París þar sem hún tilheyrði hópi norrænna kvenna sem sóttu þangað í meira frjálsræði og betri menntun en bauðst heima fyrir. Bertha Wegmann var einn vinsælasti mannamyndamálari Danmerkur við upphaf 20. aldar og þóttu verk hennar blæbrigðaríkar mannlýsingar gerðar af sálfræðilegu innsæi. Eftir andlátið féll hún hins vegar fljótt í gleymsku eins og margir aðrir kvenkyns listamenn af hennar kynslóð. Í hennar tilviki er skýringarinnar einnig að leita í bakgrunni Wegmann sem fæddist í Sviss og var því ekki Dani í augum þeirra sem skráðu listasöguna þar í landi þrátt fyrir að hún hefði búið í Danmörku frá fimm ára aldri. Auk þess þótti stíll hennar ódanskur
...