Ljósmyndun Eitt verka útskrifarnema sem finna má á sýningunni.
Ljósmyndun Eitt verka útskrifarnema sem finna má á sýningunni.

Sýning á útskriftarverkum þeirra nemenda sem ljúka diplómanámi í skapandi ljósmyndun frá Ljósmyndaskólanum í desember 2024 verður opnuð í Ljósmyndasafni Reykjavíkur á morgun, föstudaginn 13. desember, kl. 16.

Verkin á sýningunni eru sögð fjölbreytt, viðfangsefni nemenda mismunandi og framsetning, listræn sýn og fagurfræði ólík. „Endurspegla útskriftarverk nemenda þannig gróskuna í samtímaljósmyndun og fjölbreytta möguleika sem felast í ljósmyndamiðlinum,“ segir í tilkynningu.

Fjórir nemendur útskrifast að þessu sinni, þau Ingunn Rós Haraldsdóttir, María Ármanns, Sigríður Hermannsdóttir og Vala Agnes Oddsdóttir. Sýningarstjóri er Katrín Elvarsdóttir.

Hver nemandi verður með leiðsögn meðan á sýningunni stendur en frekari upplýsingar verður hægt að finna á vef Borgarsögusafns (borgarsogusafn.is)

...